Núna er veturinn kominn! Þá er um að gera að skella sér út að leika í snjónum! Hér eru nokkrar hugmyndir um hvað er hægt að gera saman úti í vetur: Búa til snjókarl Það er alltaf gaman að búa til snjókarl, eða snjóskrímsli eða bara snjó hvað sem er! Það er um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausann tauminn og búa til eitthvað sniðugt úr snjónum. Fara út að renna sér Það er líka fjör að renna sér niður brekkur á sleða, skíðum, snjóbretti eða ef allt annað bregst, svörtum ruslapoka! Maður getur farið ótrúlega hratt ef manni tekst að finna góða brekku! Búa til snjóhús Það er líka hægt að byggja snjóhús eða göng í góðum skafli. Það er líka svo gaman að liggja þar inni þegar það er tilbúið með kerti og spjalla saman og jafnvel drekka kakó. Fara á skauta Það er alltaf mjög vetrarlegt að skella sér á skauta! Nota grýlukerti fyrir íspinna Grýlukerta íspinnar eru bæði mjög flottir og gómsætir! Hugsa um fuglana Þegar mikill snjór er úti er gott að hugsa aðeins um smá fuglana og fara út með korn handa þeim að borða. Einnig væri gaman að byggja fuglahús saman og setja upp úti í garði. Fara í gönguferð Það er alltaf hægt að fara í gönguferð sama hvort snjóar eða ekki! Það er líka svo ævintýralegt að virða fyrir sér náttúruna og umhverfið í vetrar búning. Fara í sund Það er líka alltaf gaman að fara í sund og þegar mjög kalt er úti verður extra þægilegt að slappa af í heita pottinum. Föndra Það er hægt að fá allskonar hugmyndir af vetrarlegu föndri á pinterest.com. Þá væri til dæmis hægt að föndra kertastjaka úr trjágreinum eða snjókorn úr eyrnapinnum og mála snjókarla á steina. Leiktu þér úti með vasaljós Á Íslandi verður dimmt mjög snemma yfir vetrartímann. Þá getur verið gaman að fara út í gönguferð með vasaljós, segja draugasögur eða ímynda sér að þau séu geislasverð. Skoða stjörnurnar og norðurljósin Þá er tilvalið að leggjast út í náttúruna og skoða stjörnurnar og norðurljósin og reyna jafnvel að sjá út einhver stjörnumerki og eiga svolítið Lion king móment. Allt passar þetta svo einstaklega vel með heitu kakó-i! Njótið vetrarins!
0 Comments
|
FréttirHér koma nýjar fréttir og viðburðir Náttúrubarnaskólans inn. Endilega fylgist með! Greinar
June 2024
Flokkar |